Þátttakendur 2024
Enn eru að bætast við þátttakendur á hátíðina 2024, en eftirfarandi aðilar hafa staðfest komu sína.
Tónlist
Lay Low
Okkur er sannur heiður að tilkynna Lay Low á Haustgildi 2024, en hún kemur fram á árlegum “Kirkjutónleikum” hátíðarinnar að þessu sinni – sem haldnir verða í hinni hlýju, vinalegu og hljómfögru Stokkseyrarkirkju, laugardagskvöldið 7. september. Miðasala á þennan viðburð fer fram á tix.is.
Lovísu Elísabet Sigrúnardóttur (Lay Low) þarf vart að kynna fyrir landsmönnum, en hún hefur verið áberandi afl í íslensku tónlistarlífi allt frá því fyrsta sólóplata hennar, Please Don’t Hate Me, leit dagsins ljós árið 2006. Síðan þá hefur Lovísa sent frá sér fjölda sólóplatna, unnið til verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum, gert tónlist fyrir leiksýningar og kvikmyndir, komið fram víðsvegar um heiminn á tónleikaferðum með Emilíönu Torrini og Of Monsters and Men, auk þess að flytja og gefa út rokktónlist með hljómsveit sinni frá því úr æsku, Benny Crespo’s Gang.
Þess utan er Lovísa ekki síst þekkt fyrir flutning sinn í dúett með Ragnari Bjarnasyni á lagi Bjartmars Guðlaugssonar, Þannig týnist tíminn, sem valið var óskalag þjóðarinnar í kosningu á RÚV – og nú síðast fyrir lag sitt Með hækkandi sól, sem var kosið framlag Íslands til Eurovision keppninnar árið 2022.
Tónleikar Lay Low einkennast jafnan af einstaklega afslappandi og þægilegu andrúmslofti, en Lovísa vinnur áhorfendur gjarnan á sitt band með sinni eðlislægu einlægni og hæfileikum.
Freysteinn Djass-kvartett
Freysteinn Gíslason lauk BA prófi í kontrabassaleik frá The Royal Conservatorium Den Haag í Hollandi árið 2016. Hann hefur skapað sér nafn hérlendis síðan þá, sent frá sér tvær breiðskífur með kvartetti sínum og komið fram á Reykjavík Jazz Festival. Síðari plata Freysteins, Í allar áttir en samt bara eina, kom út í upphafi árs 2023 og hefur hlotið glimrandi dóma í djass tímaritum um víða veröld – en tónlistinni hefur m.a. verið lýst sem hugmyndaríkum djassi með áhrifum úr jaðarrokki. Þriðja breiðskífan er svo væntanleg undir lok árs 2024.
Á Haustgildi kemur Freysteinn fram á kontrabassa ásamt kvartetti sínum, sem skipar Hilmar Jensson (á rafgítar), Sölva Kolbeinsson (á alto saxafón) og Óskar Kjartansson (á trommur).
Hróðmar Sigurðsson og Ingibjörg Turchi
Ingibjörg Turchi bassaleikari og Hróðmar Sigurðsson gítarleikari hafa verið í samstarfi um árabil í ýmsum hljómsveitum.
Bassaleikarinn og tónskáldið Ingibjörg Elsa Turchi hefur verið sýnileg í íslensku tónlistarlífi síðustu ár og hefur komið fram með mörgum af ástsælustu listamönnum þjóðarinnar, svo sem Emilíönu Torrini, Bubba Morthens, Stuðmönnum og Teiti Magnússyni, bæði á tónleikum og upptökum en einnig hefur hún samið verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands sem frumflutt var vorið 2021 á vegum Ung-Yrkju og SÍ. Hún hefur einnig leikið í hljómsveit í Þjóðleikhúsinu og verið partur af verki Ragnars Kjartanssonar, Kona í e-moll, sem var sett upp í Hafnarhúsinu 2017. Ingibjörg gaf út stuttskífuna Wood/Work árið 2017 þar sem rafbassinn var í aðalhlutverki. Í júlí 2020 gaf Ingibjörg svo út sína fyrstu plötu í fullri lengd, Meliae, og hélt áfram að víkka út hljóðheim sinn með hjálp hljómsveitar sinnar.
Árið 2020 hlaut platan Meliae Kraumsverðlaunin, var valin plata ársins af Morgunblaðinu og straum.is og fékk 5 stjörnur í gagnrýni Morgunblaðsins. Á Íslensku tónlistarverðlaununum 2021 hlaut Ingibjörg sex tilnefningar og hlaut tvenn verðlaun, annars vegar fyrir plötu ársins í flokki Djass-og blústónlistar og fyrir Upptökustjórn í Opnum flokki. Einnig var hljómsveitin valin til að fara fyrir hönd Íslands á Nordic Jazz Comets 2020 og í kjölfarið á Finnlandstúr í september 2021. Í september 2021 var platan svo tilnefnd til Hyundai Nordic Music Prize. Haustið 2023 kom svo út platan Stropha á vegum Reykjavik Record Shop.
Hróðmar Sigurðsson útskrifaðist úr Tónlistarskóla FÍH árið 2017 með burtfararpróf í rafgítarleik og hefur starfað sem tónlistarmaður síðan. Hann hefur farið um víðan völl og leikið þvert á stíla með tónlistarmönnum eins og Elísabetu Ormslev, Ife Tolentino, Elvari Braga Kristjónssyni, Samúel Jón Samúelssyni og Ingibjörgu Turchi ásamt því að starfrækja sína eigin hljómsveit. Hróðmar gaf út sína fyrstu hljómplötu árið 2021, Hróðmar Sigurðsson, og hefur hlotið mikið lof fyrir. Hróðmar var valin Bjartasta vonin í Djass og blúsflokki á Íslensku Tónlistarverðlaununum árið 2022 og hljómsveit Hróðmars hlaut einnig tilnefningu sem flytjandi í sama flokki.
Eyjólfur og kór Íslendinga í Hollandi
Þessi skemmtilegi kór samanstendur af hópi fólks sem kynntist í gegnum sameiginlega ást sína á söng er það stundaði nám í Hollandi. Leiðari kórsins er Eyjólfur Eyjólfsson, sem búsettur er á Stokkseyri og hefur áður glatt okkur á Haustgildi með söng sínum og leik á langspil.
Dagskráin samanstendur af gömlum og nýjum ættjarðarlögum fyrir blandaðan kór, með sérstakri áherslu á Stokkseyringana Ísólf Pálsson og son hans Pál Ísólfsson.
Sverrir Norland
Sverrir Norland er mikill þúsundþjalasmiður, en auk þess að vekja athygli fyrir tónlist sína hefur hann einnig fengið mikið lof fyrir ritstörf sín, m.a. fyrir bækurnar Kletturinn (2023), Stríð og kliður (2021) og Fyrir allra augum (2016).
Önnur plata Sverris, Mér líður best illa, kom út í maí á þessu ári. Tónlistin er þjóðlagaskotið popp með áherslu á vandaða textagerð, en lög hans og textar kallast gjarnan á við skáldsögur hans á skemmtilegan máta, eins og heyra má m.a. í laginu Mér líður best illa (Kletturinn).
Kira Kira
Kristín Björk Kristjánsdóttir, betur þekkt sem Kira Kira, hefur átt langan og farsælan feril þar sem hin ýmsu form listsköpunar hafa legið undir. Hún hefur sent frá sér fjölda platna, bæði ein undir Kira Kira heitinu og í samstarfi við aðra, verið máttarstólpi fjöllistahópsins Tilraunaeldhúsið (Kitchen Motors), séð um tónlist og hljóðmynd fyrir stuttmyndir og listdanssýningar, leikstýrt og skrifað handrit, svo eitthvað sé nefnt. Tónlist Kristínar er rafskotin og nýtir hún jafnan hin ýmsu umhverfishljóð til að knýja fram hugrænt sjónarspil meðal hlustenda.
Upplestur
Shaun Bythell
Shaun Bythell er skoskur metsöluhöfundur og eigandi stærstu fornbókabúðarinnar í
Wigtown í Skotlandi sem einnig er stærsta fornbókabúð Skotlands. Wigtown er líka
Bókabær líkt og Bókabæirnir austanfjalls. Shaun hefur skrifað fjórar bækur í bóksala
seríu í dagbókaformi um líf sitt og tilveru bóksalans og er sú þriðja væntanleg í
íslenskri þýðingu í haust. Shaun mun lesa upp í Svartakletti laugardaginn 7.9. kl. 15
– 16.
Ingileif Friðriksdóttir
Ingileif Friðriksdóttir er fjölmiðlakona, menntuð lögfræðingur, kvikmyndaframleiðandi og leikstjóri sem hefur samið barnabækur með eiginkonu sinni Maríu Rut Kristinsdóttur. Saman halda þær líka út fræðsluvettvanginum Hinseginleikinn. Ljósbrot er hennar fyrsta skáldsaga þar sem það að standa með sjálfum sér og þekkja sjálfan sig er meginþemað. Hvað má leggja að veði til að halda í ímyndina, hversu lengi og vel gengur það að blekkja sjálfan sig? Ingileif les upp á Brimrót kl. 14 – 15 laugardaginn 7.9.
Ragnhildur Þrastardóttir
Ragnhildur Þrastardóttir er fædd á Landspítala árið 1996 og ólst upp bæði á
Egilsstöðum og í Reykjavík. Hún lauk BA gráðu í bókmenntafræði og ritlist árið 2019
frá Háskóla Íslands. Vorið 2023 útskrifaðist hún með meistaragráðu í blaðamennsku
frá Columbia háskóla í New York. Forlagið gaf út hennar fyrstu skáldsögu árið 2024,
bókina Eyju sem fjallar um flókin fjölskyldutengsl, brengluð samskipti og sár sem ekki gróa. Ragnhildur les upp á Brimrót sunnudaginn 8.9. Kl. 14 – 15.
Guðrún Jónína Magnúsdóttir
Guðrún Jónína Magnúsdóttir er fædd 1949 og alin upp í Andakílsárvirkjun og á Akranesi. Hún lauk landsprófi frá Gagnfræðaskóla Akraness og var í framhaldsnámi í MA og VMA.
Guðrún Jónína hefur búið víðs vegar um landið og hafði sinnt ýmsum störfum áður en hún sneri sér alfarið að tölvunni. Hefur til dæmis ort vísur og tækifærisljóð fyrir Íslendinga í meira en fjóra áratugi.
Sagan Álfadalur, sem kom út 2022, vakti mikla athygli og var meðal annars tilnefnd til verðlauna af lesendum Storytel árið 2023. Bókin Rokið í stofunni er byggð á lögregluskýrslum, dómum, dagbók forstöðukonu, bókunum barnaverndarnefnda og viðtölum við konu sem var á vinnuhælinu og Guðrún þekkti vel. Þar er Guðrún enn að vinna með afleiðingar ofbeldis og áfalla.
Bjarni Snæbjörnsson
Bjarni lauk leikaranámi með BFA gráðu frá sviðslistadeild Listaháskóla Íslands 2007. Bjarni er einnig með margra ára söngnám að baki, meðal annars frá Söngskólanum í Reykjavík og Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn. Árið 2015 lauk hann MA gráðu í listkennslu frá LHÍ og BA gráðu í ensku frá Háskóla Íslands 2013. Í bók sinni Mennsku segir Bjarni, með aðstoð
dagbóka sinna og bréfaskipta við fjölskyldu og vini, frá leiðinni út úr skápnum. Bókin er hispurlaus, þar sem Bjarni berskjaldar sig til að ná sátt í sínu eigin skinni og knýja fram niðurstöðu í mannréttindi sín og samkynhneigðra systkina. Mögnuð bók sem á erindi við allar manneskjur. Bjarni les upp á Brimrót kl. 14 – 15 laugardaginn 7.9.
Emil Hjörvar Petersen
Emil Hjörvar Petersen fæddist í Gautaborg í Svíþjóð, 7. maí 1984. Hann fluttist til
Reykjavíkur tveimur árum síðar og þaðan í Kópavog þar sem hann ólst að mestu upp.
Hann lauk B.A.-gráðu í almennri bókmenntafræði – með íslensku og skapandi skrif sem aukafag – árið 2007. Einnig M.A.-gráðu í hagnýtri ritstjórn og útgáfu, 2009. Þá flutti hann til Svíþjóðar og bjó þar í áratug og tók M.A.-próf í Literature-Culture-Media frá Háskólanum í Lundi, 2011.
Emil er einn af stofnendum Icecon – furðusagnahátíðar á Íslandi, en sú fyrsta var haldin árið 2016. Hann hefur verið ötull í því að kynna heim furðusagna, í fyrirlestraröðum og ritsmiðjum, t.d. í samstarfi við Reykjavík bókmenntaborg UNESCO. Þar hefur hann lagt áherslu á skrif furðusagna á íslensku.
Handan Hulunnar er bókaflokkur sem hófst með verðlaunabókinni Víghólum og hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda sem og lesenda. Í Skuld ráðast örlög Bergrúnar og Brár. Emil les upp ásamt furðusagnahöfundum í Skálanum kl. 13 – 14 laugardaginn 7.9.
Hildur Knútsdóttir
Hildur Knútsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1984. Hún skrifar bækur fyrir bæði börn og
fullorðna sem og leikrit og smásögur. Hildur er einna helst þekkt fyrir furðusögur og
uggvænlegar hrollvekjur. Þó hefur hún einnig skrifað bráðfyndnar bækur í félagi við
Þórdísi Gísladóttur sem fjalla um krísur í lífi nútímaunglingsins og hafa hlotið miklar
vinsældir.
Bókin Mandla er hennar nýjasta bók og er hryllingssaga um dularfulla köttinn með
sama nafn. Hún fær húsaskjól á elliheimili en hefur vofveifleg áhrif á vistmennina. Hildur les upp ásamt furðusagnahöfundum í Skálanum kl. 13 – 14 laugardaginn 7.9.
Gunnar Theódór Eggertsson
Gunnar Theodór Eggertsson er fæddur árið 1982 og er með gráðu í bæði kvikmynda- og bókmenntafræði, enda eru skrif hans undir sterkum áhrifum frá kvikmyndum. Hann er einstaklega frjór og hugmyndaríkur höfundur og hafa þeir hæfileikar notið sín til hins ýtrasta í vinsælum barna- og ungmennabókum hans sem eru af ætt furðusagna. Gunnar hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 2008 fyrir fyrstu barnabók sína Steindýrin og var tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2015 fyrir Drauga-Dísu.
Vatnið brennur er hans nýjasta bók. Margslungin og spennandi hrollvekja sem slær
glænýjan tón í íslenskum bókmenntum. Sögusviðið spannar Ísland samtímans jafnt
sem Svíþjóð hippatímabilsins en auk þess er flakkað vítt og breitt, frá fornöld til
framtíðar, og samband mannskepnunnar við tónlist skoðað frá óvæntum og oft myrkum hliðum. Gunnar les upp ásamt furðusagnahöfundum í Skálanum kl. 13 – 14
laugardaginn 7.9.
Markaður
Leirljós
Leirljós er handverkstæði sem selur keramik, kerti og flr. Leirljós býður einnig upp stuðning og sálgæslu fyrir einstaklinga og hópa þar sem unnið er samhliða í vinnustofu við skapandi verkefni.
Made in Ísland
Eyrarfiskur
Eyrarfiskur sérhæfir sig í harðfiskvinnslu í neytendapakkningar fyrir innanlands- og erlendan markað. Eyrarfiskur hefur verið starfandi á Stokkseyri frá árinu 1981. Mikið úrval og er einn allra besti harðfiskur sem völ er á.
Arabær
Ábúendur á Arabæ, Sævar Örn Sigurvinsson og Louise Anne Aitken, sem tóku við búinu árið 2006 eru hestafólk, í ferðaþjónustu og síðast en ekki síst þá rækta þau líka rófur. Engar smá rófur heldur.
Búð 2, Þykkvabæ
Kvenfélag Stokkseyrar
Allt er vænt
Vínkeldan
Benedikt Reynisson Plötusala
Benedikt Reynisson er margreyndur tónlistarmaður og tónlistargrúskari. Hann hefur skotið upp kollinum í hljómsveitum á borð við Skátar, verið umsjónarmaður útvarpsþátta, komið að plötuútgáfum og starfað í fjöldamörg ár sem plötusali í plötubúð Smekkleysu.
Eins og gefur að skilja hefur Benedikt í gegnum árin komið sér upp gríðarstóru og safaríku plötusafni, sem hann hyggst nú grisja aðeins úr. Gestum á Haustgildi býðst að gramsa í gegnum safnið og næla sér í einhverja áhugaverða og jafnvel sjaldséða titla.
Neisti skartgripir
Gallerí og vinnustofur
Gallerí Svartiklettur
Elfar Guðni Þórðarsson byrjaði að mála 1974 og hefur verið iðinn við kolann síðan. Hann hefur um árabil starfrækt gallerí Svartaklett ásamt konu sinni Helgu og Þóru dóttur þeirrra.
Gallerí Gussi
Gallerí Gussi er vinnustofa og sýningaraðstaða listamannsins Gussa, staðsett við Strandgötu 10.
Gallerí Gimli
Gallerí Gimli er handverksmarkaður þar sem finna má gæðavörur eftir 7 handverkskonur frá Stokkseyri og næsta nágrenni. Lopaflíkur, leirmunir og skart – og verði stillt í hóf.