Þátttakendur 2023
Tónlist
Krummi Björgvinsson
Krummi hefur undanfarin misseri sent frá sér lög af komandi plötu, sem er einnig hans fyrsta sólóplata. Lögin hafa öll gert það gott á öldum ljósvakans, en lagið Stories to Tell hélt t.a.m. fyrsta sæti vinsældarlista Rásar 2 í heilar 5 vikur. Krummi lýsir tónlist sinni sem kántrýskotnu þjóðlagarokki, einlægu og með sálarríkum söng – þar sem sungið er um raunir og þrengingar lífsins.
Krummi Björgvinsson kemur fram ásamt hljómsveit á tónleikum sínum á Haustgildi – sem haldnir verða í Stokkseyrarkirkju. Því er hér um að ræða bæði einstakan viðburð og einstakt umhverfi. Sérstök miðasala er inn á þann viðburð og fer fram á tix.is.
Kira Kira
Kristín Björk Kristjánsdóttir, betur þekkt sem Kira Kira, hefur átt langan og farsælan feril þar sem hin ýmsu form listsköpunar hafa legið undir. Hún hefur sent frá sér fjölda platna, bæði ein undir Kira Kira heitinu og í samstarfi við aðra, verið máttarstólpi fjöllistahópsins Tilraunaeldhúsið (Kitchen Motors), séð um tónlist og hljóðmynd fyrir stuttmyndir og listdanssýningar, leikstýrt og skrifað handrit, svo eitthvað sé nefnt. Tónlist Kristínar er rafskotin og nýtir hún jafnan hin ýmsu umhverfishljóð til að knýja fram hugrænt sjónarspil meðal hlustenda.
Kristín mun koma fram á tónleikum á Haustgildi og flytja þar nokkur af rafrænum tónverkum sínum.
Ragnar Ólafsson
Ragnar Ólafsson er hvað þekktastur sem meðlimur þjóðlaga- og kammerpopp sveitarinnar Árstíðir – en hefur komið víða við á ferli sínum – og á það við í bæði tónlistarlegu og veraldlegu samhengi. Foreldrar Ragnars er vísindafólk og vegna starfa þeirra settist fjölskyldan að á hinum ólíklegustu stöðum í æsku hans, m.a. Longyearbyen á Svalbarða. Það er því ekki að undra að myndast hafi djúp ævintýraþrá innra með ungum Ragnari – og hefur hún fylgt honum fram á fullorðinsár, en Ragnar ferðast gjarnan á framandi slóðir til að sækja sér innblástur. Þannig varð efnið á plötu hans m.i.s.s. til í ferð á húsbát niður Mississippi fljót í Bandaríkjunum og platan Mexico fæddist á mótorhjólaferðalagi um samnefndar slóðir. En Ragnar er eins og áður segir álíka ævintýragjarn í tónlist og hefur, samhliða Árstíðum og sóló ferli sínum, komið fram með framsæknum þungarokkssveitum um áraskeið, auk þess að semja tónlistina í þáttaröðinni Vitjanir og syngja fyrir íslensku Iron Maiden heiðurssveitina Maideniced.
Á tónleikunum á Haustgildi mun Ragnar koma fram með kassagítar og flytja lög af sólóplötum sínum.
Freysteinn Gíslason
Freysteinn Gíslason lauk BA prófi í kontrabassaleik frá The Royal Conservatorium Den Haag í Hollandi árið 2016. Hann hefur skapað sér nafn hérlendis síðan þá, sent frá sér tvær breiðskífur með kvartetti sínum og komið fram á Reykjavík Jazz Festival. Síðari plata Freysteins, Í allar áttir en samt bara eina, kom út í upphafi árs 2023 og hefur hlotið glimrandi dóma í djass tímaritum um víða veröld – en tónlistinni hefur m.a. verið lýst sem hugmyndaríkum djassi með áhrifum úr jaðarrokki.
Á Haustgildi kemur Freysteinn fram með kontrabassa og meðspilarar hans eru Helgi R. Heiðarsson (tenór saxafónn) og Óskar Kjartansson (trommur).
Eyjólfur Eyjólfsson
Eyjólfur Eyjólfsson er reyndur tenór sem hlaut MMus gráðu frá hinni virtu akademíu Guildhall School of Music and Drama í London árið 2005. Hann söng um árabil í uppsetningum á vegum Íslensku óperunnar auk þess að koma fram í sýningum víðsvegar um Evrópu. Eyjólfur var að auki tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem söngvari ársins árið 2013.
Með árunum hefur norræn þjóðlagahefð fengið meira vægi hjá Eyjólfi – en hann er þjóðfræðingur að mennt – og hefur verkefni hans, langspilssmiðja fyrir alla fjölskylduna, m.a. vakið nokkra athygli. Eyjólfur er einnig meðlimur í tónlistarhópnum Gadus Morhua Ensemble og leikur þar á flautu og langspil. Hópurinn sendi frá sér plötuna Peysur & parrukk árið 2021, þar sem finna má frumsamið efni í bland við íslensk og erlend þjóðlög úr fyrndinni.
Á tónleikum sínum á Haustgildi kemur Eyjólfur fram með langspil og söng.
Upplestur
Einar Már Guðmundsson
Einar Már Guðmundsson hefur verið meðal vinsælustu rithöfunda á Íslandi allt frá árinu 1982 þegar bókin Riddarar hringstigans sló í gegn. Eftir hann liggur fjöldinn allur af skáldsögum – en einnig hafa komið út smásögur, ljóðabækur og greinasöfn. Einar Már hefur hlotið margar viðurkenningar á ferli sínum, m.a. Norrænu bókmenntaverðlaunin, Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og Íslensku bókmenntaverðlaunin. Með bók sinni Englar alheimsins, frá 1993, má segja að Einar hafi endanlega stimplað sig inn sem einn af færustu höfundum landsins, en hún er með þekktustu íslensku skáldsögum síðari tíma og eftir henni hafa verið gerðar bæði vinsæl kvikmynd og verðlaunuð leiksýning.
Gestum Haustgildis býðst að hlýða á kafla úr nýrri skáldsögu Einars Más, sem væntanleg er til útgáfu innan skamms.
Sigtryggur Baldursson
Sigtryggur Baldursson er reyndur og virtur tónlistarmaður, heimsfrægur trommari og söngvari sem hefur verið þátttakandi í íslensku tónlistarlífi í áratugi. Upphafsmaður margra tímamótahljómsveita eins og Þeyr, Kukl og Sykurmolarnir, ásamt því að vera í forsvari fyrir hljómsveitir á borð við Bogomil Font og miljónamæringana, Dip og Steintrygg og starfað með aragrúa tónlistarmanna, innlendum og erlendum.
Seinustu ár hefur Sigtryggur séð um vinsæla tónlistarþáttinn Hljómskálinn á RÚV, og verið framkvæmdarstjóri Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar frá árinu 2012.
Svo að, humar eða frægð og allskyns framkoma og endalaus sköpun sem við fáum tækifæri á að kynnast betur í nýrri bók sem væntanleg er í haust frá bókaútgáfunni Króníku. Sigtryggur les upp úr þessari spennandi bók á Brimrót, sunnudaginn 03.09. kl. 14.
Hlín Agnarsdóttir
Hlín Agnarsdóttir er fædd í Reykjavík 1953. Stúdentspróf frá Menntaskólanum við Tjörnina 1973. Forspjallsvísindi og 1. stig í ensku frá Háskóla Íslands 1975. Hún lagði stund á leiklistarfræði við Uppsala- og Stokkhólmsháskóla og síðar leikstjórn í London.
Hlín hefur skrifað fjölda bóka og leikrita, hennar fyrsta var Láttu ekki deigan síga, Guðmundur árið 1984 og var sýnt í Stúdentaleikhúsinu. Til að nefna einhverjar bækur eftir hana má nefna Blómin frá Maó (2009) og Hildurleikur (2020). En Hlín hefur einnig skrifað fjölda leikverka fyrir leikhús og útvarp, þar sem hún hefur gegnt ýmsum hlutverkum – og sat sem dæmi í hinum rómaða útvarpsþætti Orð skulu standa með Davíð Þór Jónssyni og Karli Th. Birgissyni.
Hlín er að senda frá sér bók nú í haust 2023 og mun lesa uppúr henni á Brimrót 02.09. kl. 14.
Gunnar Theodór Eggertsson
Gunnar Theodór Eggertsson er fæddur árið 1982 og er með gráðu í bæði kvikmynda- og bókmenntafræði, enda eru skrif hans undir sterkum áhrifum frá kvikmyndum. Hann er einstaklega frjór og hugmyndaríkur höfundur og hafa þeir hæfileikar notið sín til hins ýtrasta í vinsælum barna- og ungmennabókum hans sem eru af ætt furðusagna.
Fantasíur Gunnars höfða til lesenda á öllum aldri sannarlega og er þriðja bók hans í þríleiknum Furðufjall væntanleg í haust – en hann vinnur líka að hryllingssögu fyrir eldri lesendur sem vonandi mun líta dagsins ljós fljótlega. Gunnar mun lesa upp í Skálanum, laugardaginn 02.09.23 kl. 17.
Natalia Stolyarova
Natalia Stolyarova er fædd í Rússlandi árið 1987 og flutti til Íslands árið 2012. Hún er menntuð í blaðamennsku og hefur skrifað greinar í lausamennsku um nýja heimaland sitt. Árið 2016 útskrifaðist hún frá Háskóla Íslands með BA-gráðu í íslensku sem annað mál og með sænsku sem aukagrein.
Natalia hefur þýtt íslensk skáldverk á rússnesku, nú síðast Kviku eftir Þóru Hjörleifsdóttur. Hún ritstýrði safnriti ljóða skálda af erlendum uppruna, sem nefnist Pólífónía af erlendum uppruna, og var auk þess einn höfunda þess. Þá er hún annar tveggja ritstjóra að greinarsafni sem Bókmenntaborgin í Reykjavík gefur út á næsta ári.
Fyrsta ljóðabók Nataliu er Máltaka á stríðstímum en fyrir hana hlaut hún Bókmenntverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2022.
Ófeigur Sigurðsson
Fyrsta ljóðabók Ófeigs Sigurðssonar kom út árið 2001 og hefur hann sannarlega ekki setið auðum höndum síðan þá. Átta skáldverk hafa nú litið dagsins ljós og hlaut Ófeigur verðlaun bóksala og Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2015 fyrir bókina með langa titilinn: Skáldsögu um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma. Þýðing hans á bók Roberto Bolano Verndargripur var tilnefnd til íslensku þýðingarverðlaunanna árið eftir.
Ófeigur mun lesa upp á gallerí Svartakletti 02.09. Kl. 15, en upplesturinn hefur fengið nafnið “Make Árnessýsla Great Again” þar sem bækur þeirra höfunda sem lesa þar upp, Ófeigs og Einars Más, gerast á Stokkseyri, Eyrarbakka og Flóanum.
Sandra B. Clausen
Akureyringurinn Sandra Clausen hefur á stuttum tíma skapað sér nafn sem rithöfundur hérlendis en hún er höfundur bókanna í seríunni Hjartablóð. Bækurnar eru í anda Ísfólksins og draga lesandann inn í líf ungrar stúlku á miðöldum. Bækurnar eru sögulegar skáldsögur með erótísku ívafi og sögusvið er Skandinavía. Von er á sjöundu bók Söndru í haust.
Sandra bjó í Hveragerði í fáein ár þar sem hún vann á Heilsustofnun við það að nudda. Hún flutti svo yfir á Stokkseyri fyrir um ári þar sem hún stundar útivist af krafti, málar í frístundum og sækir innblástur í hafið.
Bjarni Þór Pétursson
Bjarni Þór Pétursson er stjórnmálafræðingur, með meistaragráðu í alþjóðasamskiptum og kennsluréttindi. Hann hefur starfað í hartnær tvo áratugi við að aðstoða einstaklinga með geðrænar áskoranir áfram í lífinu auk þess að sinna kennslu, blaðamennsku, fyrirlestrarhaldi og kosningastjórnun. Um er að ræða hans fyrstu skáldsögu.
Megir þú upplifa er óður til fegurðarinnar. Óður til borgarlífs. Óður til Evrópu. Og óður til skálds. Hún er tilraun til að milda hjörtu. Tilraun til að mála með litríkum breiðum penslum yfir gráan hversdagleika. Og tilraun til að fanga það besta sem lífið hefur upp á að bjóða.
Í Vesturbænum býr breyskur maður í eilífri leit að fegurð lífsins um leið og hann tekst á við persónulegan harm. Hann þráir frelsi æskunnar og hina brothættu fullkomnun sem er rétt utan seilingar. Við fylgjum honum í gegnum ferðalög, endurminningar og hjákátleg samskipti við konurnar í lífi hans. Fylgjumst með honum gera tilraun til að vera guðseindin í heimi sem oft virðist svo glataður.
Harpa R. Kristjánsdóttir
Harpa Rún Kristjánsdóttir er fædd á Þorra árið 1990, uppalin í sveit undir Heklurótum og tollir þar enn. Að vera bændadóttir er hennar helsta menntun auk stúdentsprófs frá FSu og grunn- og meistaraprófs í Almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands.
Auk vinnumennsku á sauðfjárbúi hefur Harpa Rún starfað sem þjónn og kokkur, aðstoðarkennari, bóksali, prófarkalesari og viðburðastjórnandi. Skrifað hefur hún alla tíð, meira en útgáfuafrekin gefa til kynna.
Árið 2019 hreppti Harpa Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir handrit að ljóðabókinni Eddu og 2021 sendi hún frá sér sína fyrstu skáldsögu, Kynslóð.
Þórdís Þúfa Björnsdóttir
Þórdís Þúfa Björnsdóttir vakti fyrst athygli fyrir sjálfútgefna ljóðabók sína, Ást og appelsínur, haustið 2004. Verkið hefur verið sett á svið, þar sem Þórdís flutti ljóð sín sjálf við leikræna tjáningu sviðslistamanna, en auk þess voru ljóðin innblástur að tónverki eftir Szymon Kuran sem gefið var út með upplestri Þórdísar.
Af öðrum verkum Þórdísar má nefna ljóðabókina Vera & Linus sem komið hefur út bæði hérlendis og í Bandaríkjunum.
Markaður
Sólheimar
Sólheimar eru sjálfbært samfélag þar sem rúmlega 100 einstaklingar búa og starfa saman. Sólheimar eru stofnaðir árið 1930 af Sesselju Hreindís Sigmundsdóttur (1902 – 1974). Byggðahverfið Sólheimar leggur áherslu á ræktun manns og náttúru. Rekin er öflug félagsþjónusta á Sólheimum þar sem einstaklingum með fjölbreyttan bakgrunn er veitt tækifæri til atvinnu og starfsþjálfunar, búsetu, félags- og menningarstarfs.
Livefood
Livefood var stofnað í nóvember árið 2019 með það að leiðarljósi að búa hágæða osta úr plöntu afurðum. Fyrirtækið hefur komið sér upp aðstöðu í Hveragerði og notfærir sér orku svæðisins við framleiðslu á vörum sínum. Kolefnisfótspor fyrirtækisins er forsvarsmönnum þess ofarlega í huga og vilja þau stuðla að sjálfbærni í hvívetna.
Sápufólkið
Framleiðsla sápufólksins á afurðum úr hreindýrafitu gengur út á að fullnýta allt það sem fæst út úr hreindýraveiðum. Hvort sem um er að ræða sápu, húðvörur eða varasalva eru gæði og metnaður í bland við tilraunakenndar útgáfur alltaf til staðar.
Pönnukökuvagninn
Pönnukökuvagninn ehf. var stofnaður í ágúst 2018. Tilgangurinn var og er að selja íslensku pönnukökuna með tilheyrandi; sultum, sósum o.fl. Okkur þykir mikilvægt að halda í íslenskar matarhefðir og þar er íslenska pönnukakan aldeilis stór partur. Við poppum upp með pönnsurnar þegar tækifæri gefst.
Okkar aðalvara eru sultur sem við seljum í verslunum víðs vegar um landið.
Grunnurinn er íslenskur rabarbari.
Bjóðum uppá 4 tegundir:
Með engifer, með appelsínu & vanillu, með gráfíkjum og sú gamla góða, originalinn.
Pönnukökuvaginn leggur áherslu á ferska og “heimalagaða” vöru, íslenskt handverk.
Öll okkar framleiðsla fer fram í eldhúsi Matís.
Eyrarfiskur
Eyrarfiskur sérhæfir sig í harðfiskvinnslu í neytendapakkningar fyrir innanlands- og erlendan markað. Eyrarfiskur hefur verið starfandi á Stokkseyri frá árinu 1981. Mikið úrval og er einn allra besti harðfiskur sem völ er á.
Arabær
Ábúendur á Arabæ Sævar Örn Sigurvinsson og Louise Anne Aitken sem tóku við búinu árið 2006 eru hestafólk, í ferðaþjónustu og síðast en ekki síst þá rækta þau líka rófur. Engar smá rófur heldur.
Korngrís
María Guðný Guðnadóttir og Hörður Harðarson byrjuðu með eina gyltu í gömlu hesthúsi árið 1978 og hefur stækkað ört síðan. Í dag eru gylturnar orðanar 160 sem er talið lítið bú í dag. Þetta er lítið fjölskyldubú. Bændurnir þar rækta sitt eigið bygg, hveiti og repju til að fóðra svínin.
Smiðjan brugghús
Smiðjan brugghús var stofnað árið 2018 og hefur á skömmum tíma að sannað sig sem frumkvöðla íbruggun á handverksbjórum á Íslandi. Smiðjan hefur frá upphafi verið staðsett í Vík í Mýrdal og heillað erlenda ferðamenn uppúr skónum. Þau hafa enda alltaf lagt metnað sinn í að vera skjólshús fyrir hverskonar bjóráhugafólk og starfsfólk staðarins gefur sér alltaf tíma til að ræða bjór Smiðjunnar eða hvaða bjór sem er.
Jörth
Jörth var stofnuð með það markmið að hjálpa fólki að bæta heilsu sína og líðan með því að koma jafnvægi á þarmaflóruna. Það er okkar tilgangur. Við búum til hágæðabætiefni úr náttúrulegum hráefnum sem græða þig innan frá, eitt skref í einu. Því betri flóra hefur áhrif á svo miklu meira en bara meltinguna. Hún er grunnurinn að góðri heilsu, bæði líkamlegri og andlegri.
Goðanes grafinn þorskur
Hjá Goðanes grafinn þorskur eru framleiddar þrjár bragðtegundir, með kryddjurtum, með kryddjurtum og sweet chili, og kryddjurtum með bláberjum.
Benedikt Reynisson Plötusala
Benedikt Reynisson er margreyndur tónlistarmaður og tónlistargrúskari. Hann hefur skotið upp kollinum í hljómsveitum á borð við Skátar, verið umsjónarmaður útvarpsþátta, komið að plötuútgáfum og starfað í fjöldamörg ár sem plötusali í plötubúð Smekkleysu.
Eins og gefur að skilja hefur Benedikt í gegnum árin komið sér upp gríðarstóru og safaríku plötusafni, sem hann hyggst nú grisja aðeins úr. Gestum á Haustgildi býðst að gramsa í gegnum safnið og næla sér í einhverja áhugaverða og jafnvel sjaldséða titla.
Gallerí og vinnustofur
Gallerí Svartiklettur
Elfar Guðni Þórðarsson byrjaði að mála 1974 og hefur verið iðinn við kolann síðan. Hann hefur um árabil starfrækt gallerí Svartaklett ásamt konu sinni Helgu og Þóru dóttur þeirrra.
Gallerí Gussi
Gallerí Gussi er vinnustofa og sýningaraðstaða listamannsins Gussa, staðsett við Strandgötu 10.
Gallerí Gimli
Gallerí Gimli er handverksmarkaður þar sem finna má gæðavörur eftir 7 handverkskonur frá Stokkseyri og næsta nágrenni. Lopaflíkur, leirmunir og skart – og verði stillt í hóf.