Þátttakendur 2025
Enn eru að bætast við þátttakendur á hátíðina 2025, en eftirfarandi aðilar hafa staðfest komu sína.
Tónlist

Hróðmar Sigurðsson og Ingibjörg Turchi
Ingibjörg Turchi bassaleikari og Hróðmar Sigurðsson gítarleikari hafa verið í samstarfi um árabil í ýmsum hljómsveitum. Þetta verður í annað sinn sem parið kemur fram á Haustgildi, en tónleikar þeirra lokuðu hátíðinni 2024 á ljúfum og eftirminnilegum nótum.
Bassaleikarinn og tónskáldið Ingibjörg Elsa Turchi hefur verið sýnileg í íslensku tónlistarlífi síðustu ár og hefur komið fram með mörgum af ástsælustu listamönnum þjóðarinnar, svo sem Emilíönu Torrini, Bubba Morthens, Stuðmönnum og Teiti Magnússyni, bæði á tónleikum og upptökum en einnig hefur hún samið verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands sem frumflutt var vorið 2021 á vegum Ung-Yrkju og SÍ. Hún hefur einnig leikið í hljómsveit í Þjóðleikhúsinu og verið partur af verki Ragnars Kjartanssonar, Kona í e-moll, sem var sett upp í Hafnarhúsinu 2017. Ingibjörg gaf út stuttskífuna Wood/Work árið 2017 þar sem rafbassinn var í aðalhlutverki. Í júlí 2020 gaf Ingibjörg svo út sína fyrstu plötu í fullri lengd, Meliae, og hélt áfram að víkka út hljóðheim sinn með hjálp hljómsveitar sinnar.
Árið 2020 hlaut platan Meliae Kraumsverðlaunin, var valin plata ársins af Morgunblaðinu og straum.is og fékk 5 stjörnur í gagnrýni Morgunblaðsins. Á Íslensku tónlistarverðlaununum 2021 hlaut Ingibjörg sex tilnefningar og hlaut tvenn verðlaun, annars vegar fyrir plötu ársins í flokki Djass-og blústónlistar og fyrir Upptökustjórn í Opnum flokki. Einnig var hljómsveitin valin til að fara fyrir hönd Íslands á Nordic Jazz Comets 2020 og í kjölfarið á Finnlandstúr í september 2021. Í september 2021 var platan svo tilnefnd til Hyundai Nordic Music Prize. Haustið 2023 kom svo út platan Stropha á vegum Reykjavik Record Shop.
Hróðmar Sigurðsson útskrifaðist úr Tónlistarskóla FÍH árið 2017 með burtfararpróf í rafgítarleik og hefur starfað sem tónlistarmaður síðan. Hann hefur farið um víðan völl og leikið þvert á stíla með tónlistarmönnum eins og Elísabetu Ormslev, Ife Tolentino, Elvari Braga Kristjónssyni, Samúel Jón Samúelssyni og Ingibjörgu Turchi ásamt því að starfrækja sína eigin hljómsveit. Hróðmar gaf út sína fyrstu hljómplötu árið 2021, Hróðmar Sigurðsson, og hefur hlotið mikið lof fyrir. Hróðmar var valin Bjartasta vonin í Djass og blúsflokki á Íslensku Tónlistarverðlaununum árið 2022 og hljómsveit Hróðmars hlaut einnig tilnefningu sem flytjandi í sama flokki.

Synthea Starlight
Synthea Starlight er skemmtilegur dúett sem kemur frá plánetunni Jörð og segist spila geim-diskó fyrir alla, þó sérstaklega Jarðarbúa.
Dúettinn skipa söngkonan Jara, sem hefur gefið út eigið efni á plötum auk þess að semja fyrir leikhús og kvikmyndir, og hljómborðsleikarinn Thoracius Appotite, sem einnig hefur gefið út eigið efni og komið fram með sveitum á borð við Just Another Snake Cult, o.fl.

SiGRÚN
Tónlistarkonan Sigrún Jónsdóttir (sem gefur út undir heitinu SiGRÚN) skaust hressilega fram á sjónarsviðið hér á landi undir lok síðasta árs með sinni fyrstu stóru plötu, Monster Milk, sem hlotið hefur mikið lof og var nefnd sem ein af plötum ársins af gagnrýnanda Morgunblaðsins, Arnari Eggert Thoroddsen. Áður hafði SiGRÚN gefið út stuttskífur og stök lög allt frá árinu 2016.
Ferill Sigrúnar byrjaði þó mun fyrr, en árið 2007 ferðaðist hún um heiminn sem meðlimur blástursveitarinnar Wonderbrass, og lék þar undir með Björk Guðmundsdóttur á tónleikaferðalagi hennar. Síðar átti Sigrún eftir að leika undir með m.a. Sigur Rós og bresku sveitinni Florence + the Machine, áður en hún tók að einbeita sér að eigin efni.
Tónlistinni sem SiGRÚN leikur má lýsa sem afar vönduðu, rafskotnu listapoppi.

Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson
Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson var þrautlærður gítarleikari þegar hann tók að einbeita sér að tónsmíð af fullum krafti. Hann lauk framhaldsnámi í tónsmíðum og tónfræði við Tónlistarháskólann í Utrecht og hefur starfað hér á landi síðan þá, bæði við kennslu í Listaháskóla Íslands og tónsmíðar fyrir leikhús og sjónvarp.
Hróðmar Ingi er uppalinn í Hveragerði og hefur áfram ræktað suðurlensk tengsl í sinni listsköpun, m.a. með söngverki sínu Stokkseyri sem hlaut útgáfu í flutningi Sverris Guðjónssonar og kammersveitarinnar Caput árið 2000.
Á tónleikum sínum á Haustgildi mun Hróðmar njóta liðsinnis Agnars Más Magnússonar (píanó) og Svanlaugar Jóhannesdóttur (söngur).
Upplestur

Maó Alheimsdóttir
Maó Alheimsdóttir er fædd og uppalin í Póllandi en hefur verið búsett á Íslandi frá árinu 2006. Hún lærði íslensku og bókmenntafræði og afrekaði m.a. það að vera fyrsti nemandi af erlendum uppruna til að útskrifast með meistarapróf í ritlistum frá Háskóla Íslands.
Eftir Maó liggur skáldsagan Veðurfréttir og jarðarfarir og ljóðabókin Ljóðatal, útvarpsþættir og gjörningar, svo fátt eitt sé talið.

Eiríkur Örn Norðdahl
Ísfirðingurinn Eiríkur Örn Norðdahl er afkastamikill og sniðugur höfundur sem hlotið hefur ýmis verðlaun á sínum ferli, m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2012 fyrir skáldsöguna Illsku. Þá hafa mörg af verkum hans verið þýdd á erlend tungumál og fengið góðar viðtökur erlendis.

Sandra B. Clausen
Akureyringurinn Sandra Clausen hefur á stuttum tíma skapað sér nafn sem rithöfundur hérlendis en hún er höfundur bókaseríunnar Hjartablóð, sem eru sögulegar skáldsögur með erótísku ívafi í anda Ísfólksins.

Brynja Hjálmsdóttir
Brynja Hjálmsdóttir hefur lokið BA prófi í kvikmyndafræðum og MA prófi í ritlist frá Háskóla Íslands. Á stuttum ferli hefur Brynja fengið mikið lof fyrir verk sín. Hennar fyrsta ljóðabók, Okfruman, hlaut þannig viðurkenningu bóksala sem ljóðabók ársins 2019 og fimm árum síðar (2024) hafnaði fyrsta skáldsaga hennar, Friðsemd, í 3. sæti hjá bóksölum. Auk þess hlaut Brynja Hvatningarverðlaun Vigdísar Finnbogadóttur árið 2022.

Vala Hauksdóttir
Af vef Forlagsins:
Vala Hauks (f. 1992) er skáld og ferðamálafræðingur sem býr á Selfossi ásamt fjölskyldu sinni. Hún hefur einkum starfað í tengslum við ferðaþjónustu en hefur einnig stundað nám í ritlist við Háskóla Íslands og vakið athygli fyrir skáldskap sinn. Árið 2024 hlaut hún Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið „Verk að finna“ og árið 2025 fékk annað ljóð eftir hana, „Svipting“, sérstaka viðurkenningu dómnefndar í sömu samkeppni. Fyrsta ljóðabók hennar, Félagsland, kom út snemma árs 2025. Ljóð Völu eru sterk og beinskeytt, einkennast af skýru myndmáli, léttleika og óvanalegri sýn. Hún yrkir um lífið í landinu, samfélag og menningu, litbrigði náttúrunnar og hugans, strjála byggð og samvistir við annað fólk.

Gunnar Randversson
Gunnar Randversson fæddist á Akureyri 1959 en ólst upp á Ólafsfirði. Nýjasta ljóðabókin hans heitir Þegar ég var lítill var ég alltaf hræddur og er það fimmta ljóðabók Gunnars sem einnig hefur sent frá sér smásagnasafnið Gulur Volvo. Ljóðin í þessari nýjustu ljóðabók Gunnars eru hversdagslegar og einlægar stemmur byggðar á æskuminningum og hvernig þessar minningar móta ljóðmælanda sem fullorðinn mann. Gunnar er tónlistarmaður og -kennari og hefur gefið út tvo geisladiska með eigin tónlist.

Guðrún Hannesdóttir
Guðrún Hannesdóttir fæddist þann 18. júní árið 1944. Hún sat lengi vel í stjórn samtakanna Barna og bóka, Íslandsdeildar IBBY-samtakanna, sem og í ritstjórn tímaritsins Börn og menning, sem samtökin gefa út. Hún hefur hlotið verðlaun fyrir bæði skrif sín og myndskreytingar, þá helst Íslensku barnabókaverðlaunin ásamt Sigrúnu Helgadóttur árið 1996 fyrir Risann þjófótta og skyrfjallið, sem Guðrún myndskreytti; og Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2007 fyrir ljóðið Offors. Árið 2021 hlaut Guðrún Íslensku þýðingaverðlaunin fyrir þýðingu sína á bókinni Dyrnar eftir ungversku skáldkonuna Mögdu Szabó. Á árinu kom út ljóðasafn Guðrúnar hjá Dimmu útgáfu.
Markaður
Upplýsingar um framleiðendur á markaði hátíðarinnar 2025 koma síðar.
Gallerí og vinnustofur

Gallerí Svartiklettur
Elfar Guðni Þórðarsson byrjaði að mála 1974 og hefur verið iðinn við kolann síðan. Hann hefur um árabil starfrækt gallerí Svartaklett ásamt konu sinni Helgu og Þóru dóttur þeirrra.

Gallerí Gussi
Gallerí Gussi er vinnustofa og sýningaraðstaða listamannsins Gussa, staðsett við Strandgötu 10.

Gallerí Gimli
Gallerí Gimli er handverksmarkaður þar sem finna má gæðavörur eftir 7 handverkskonur frá Stokkseyri og næsta nágrenni. Lopaflíkur, leirmunir og skart – og verði stillt í hóf.